Svo gæti farið að Tiger Wodds missi toppsæti sitt á stigalista kylfinga í hendurnar á Phil Mickelson á næstu dögum.
Bilið á milli fyrsta og annars sætis er nú aðeins 0,2 stig, en Woods er nýkominn til keppni á ný eftir átta mánaða fjarveru vegna hnéuppskurðar.
Ef Woods nær ekki að vera í öðru af tveimur efstu sætunum á Arnold Palmer mótinu í vikunni, gæti Mickelson farið upp fyrir hann á opna Houston mótinu í næstu viku.
Woods hefur verið í toppsæti heimslistans í 198 vikur síðan hann komst upp fyrir Vijay Singh árið 2004, en hann hefur alls verið í toppsætinu í 540 vikur á ferlinum - eða samtals í meira en tíu ár. Mickelson hefur aldrei komist í toppsæti listans á ferlinum.