Körfubolti

Dallas sló San Antonio út eftir aðeins fimm leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josh Howard og Brandon Bass fagna sigri í nótt.
Josh Howard og Brandon Bass fagna sigri í nótt. Mynd/GettyImages

Dallas Mavericks varð þriðja liðið til að tryggja sér sæti í annarri umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt þegar liðið vann 106-93 sigur á San Antonio Spurs á útivelli. Dallas vann þar með einvígið 4-1.

Þetta var í fyrsta sinn síðan 2006 sem Dallas kemst áfram upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar en liðið vann þrjá síðustu leiki einvígisins. Tim Duncan þurfti hinsvegar að sætta sig við það í fyrsta sinn á ferlinum að detta út í fyrstu umferð.

„Við tókum eitt lítið barna-skref í átt að titlinum með því að vinna þetta einvígi," sagði Jason Kidd og bætti við. "Nú byrjar þetta allt upp á nýtt. Við fáum kannski einn dag til að njóta sigursins en ekki meira," sagði Kidd. Dallas mætir annaðhvort Denver eða New Orleans í næstu umferð en Denver er 3-1 yfir í því einvígi.

Dirk Nowitzki skoraði 31 stig fyrir Dallas, Jason Terry kom með 19 stig af bekknum og Josh Howard var með 17 stig. Dallas liðið vann 7 af síðustu 9 leikjum sínum í deildarkeppninni og hefur því unnuð 11 af síðustu 14 leikjum sínum.

Tim Duncan skoraði 30 stig og Tony Parker bætti við 26 stigum en eins og áður í þessu einvígi þá fengum þeir litla hjálp frá öðrum leikmönnum í liðinu. „Þeir voru með meira vopnabúr og spiluðu betur en við," sagði Duncan fámall en þegar San Antonio datt síðast út úr 1. umferð árið 2000 þá gat hann ekki verið með vegna hnémeiðsla.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×