Innlent

Lalli Johns í tíu mánaða fangelsi

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Lalli Johns var í dag dæmdur í tíu mánaða fangelsi.
Lalli Johns var í dag dæmdur í tíu mánaða fangelsi. Mynd/ E.Ól.

Lárus Björn Svavarsson, betur þekktur sem Lalli Johns, var í dag dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar og húsbrot. Lalli var dæmdur fyrir að brjótast inn í hús við Grænumörk í Hveragerði.

Brotið átti sér stað þriðjudaginn 10. júní árið 2008, fyrir hádegi. Kona sem búsett var í húsinu kom þá heim og heyrði að svefnherbergishurðinni var skellt aftur. Gekk hún þá að hurðinni og reyndi að opna en svo virtist sem einver streittist á móti handan við dyrnar. Með krafti náði konan að opna rifu á dyrnar þar sem hún sá Lalla gægjast í dyragættina. Mun hún hafa þekkt Lalla og spurt „...hvern fjandann hann væri að gera þarna." Lalli hafi þá komið með þá skýringu að hann ætlaði að hringja á leigubíl.

Konan sá hinsvegar skartgripi á rúmi sínu og því fauk í hana samkvæmt framburði hennar. Hún hringdi því á lögreglu og hélt Lalla föngnum þar til Lögregla kom á svæðið en þá sat ákærði á stól úti í garði í umsjá húsráðanda og vitna.

Lalli var einnig dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×