Viðskipti innlent

Hertar reglur veikja gengið erlendis

Gengi krónunnar hefur veikst á aflandsmarkaði (utan landsteinanna) þótt það hafi styrkst hér innanlands síðustu daga. Þetta kemur fram í Hagsjá, nýju daglegu vefriti hagfræðideildar Landsbankans.

Þar kemur fram að síðustu tíu daga hafi evran lækkað úr 177,4 krónum í 171,6 krónur, eða sem nemur 3,3 prósentum. Engin velta hafi hins vegar verið á innlendum gjaldeyrismarkaði í gær og því hafi gengið nánast staðið í stað frá því fyrir helgi. „Aflandsgengi (e. Off-shore) krónu hefur aftur á móti farið hækkandi undanfarið og má að einhverju leyti rekja veikinguna til þess að markaðsaðilar telja að Seðlabankinn hafi verið að herða á reglum sínum um gjaldeyriskaup með birtingu á minnisblaði dagsettu 28. maí síðastliðinn," segir í Hagsjá.

Í minnisblaðinu eru tilmæli til fjármálastofnana um framkvæmd og sölu gjaldeyris og hnykkt á þeim skilningi Seðlabankans að ekki sé unnt að skipta tilteknum vaxtagreiðslum yfir í erlendan gjaldeyri. Þar á meðal eru vextir af erlendum skuldabréfum sem gefin eru út af erlendum aðilum í krónum (svonefndum jöklabréfum), vextir af krónureikningum hjá erlendum fjármálafyrirtækjum, og vextir af hvers kyns fjármálagerningum sem gefnir eru út af erlendum aðilum.

„Þetta virðist vera strangari túlkun en markaðsaðilar höfðu áður gert ráð fyrir og því er ekki óeðlilegt að bilið á milli innanlands- og aflandsgengis aukist," segir hagfræðideild Landsbankans í nýju vefriti sínu.- óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×