Innlent

Danskir víkingar allsberir í Peningagjá

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar

„Jú, þetta er rétt," segir Jóna Gunnarsdóttir, landvörður á Þingvöllum um uppákomu sem átti sér stað á Þingvöllum á mánudag. Samstarfskona Jónu kom þá að fjórum kviknöktum karlmönnum á sundi í Peningagjá. Voru þar á ferð danskir víkingar.

Dönsku víkingarnir eru staddir hér á landi í tengslum við Víkingahátíðina í Hafnarfirði. Farið var með víkingana, sem eru átta talsins, hinn svokallaða gullna hring; Gullfoss, Geysi og á Þingvelli. Á þingvöllum fengu þeir að skoða peningagjá og eins og sönnum víkingum sæmir freistuðu gullin á botni gjáarinnar þeirra. Brugðu fjórir þeirra þá á það ráð að kasta af sér öllum herklæðum og stinga sér til sunds í gjánni á fötum keisarans.

„Þetta er stranglega bannað," segir Jóna. „Þeir voru reknir upp úr en létu sér ekki segjast. Þegar landvörðurinn fór stungu þeir sér strax út í aftur."

Hún segir þetta ekki vera algengt - „Sem betur fer." Vatnið í Peningagjá er enda ískyggilega kalt eða tvær til fórar gráður. „Kafarar þurfa meira að segja að fara í þurrbúning þegar þeir kafa í gjánni. Þeim nægir ekki að vera í blautbúning," segir Jóna. Hún segir þó að einstaka sinnum þurfi landverðir að hafa afskipti af ferðamönnum sem svipta sig klæðum og baða sig í Þingvallavatni, en aldrei í Peningagjá.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×