Fyrrum heimsmeistarinn í Formúlu 1, Fernando Alonso, þurfti að fresta heimför sinni eftir heimsókn til Kenía í Afríku eftir að hafa lent í flugóhappi.
Þetta kom fram í tilkynningu frá keppnisliði Renault í dag, en Spánverjinn var í Afríku í boði liðsstjórans Flavio Briatore.
Einkaflugvél hans rak vænginn utan í byggingu á flugvellinum en ekki mun hafa verið um alvarlegt óhapp að ræða eftir því sem fram kemur í frétt frá Reuters.
Alonso varð heimsmeistari árin 2005 og 2006 með liði Renault og sneri aftur í herbúðir liðsins fyrir síðasta tímabil eftir stormasamt ár hjá McLaren liðinu.