Hafþór Harðarson, 22 ára keilari úr ÍR, sem spilar nú með sænska félaginu Team Pergamon, varð um helgina í öðru sæti á móti í Evrópumótaröðinni sem fram fór í Ljubijana í Slóveníu. Þetta er langbesti árangur Íslendings á Evróputúrnum í keilu.
Hafþór tapaði naumlega á móti Osella Luca frá Ítalíu í úrslitaleiknum eða aðeins með átta pinnum. Hafþór spilaði +a 234 og 216 en Ítalinn 233 og 225. Hafþór var því með einn pinna í forskot eftir fyrri leikinn.
Hafþór vann Þjóðverjann David Canady, 468-452 í undanúrslitum og Svíann Denis Eklund 459-416 í átta liða úrslitum á mótinu. Hafþór varð fjórði í undanrásunum.
Árangur Hafþórs er frábær en þess ber þó að geta að þetta er eitt af minni mótunum á Evróputúrnum og fáir af bestu spilurunum tóku þátt.