Innlent

Dómsmálaráðuneytið fellst á framsal Hosmany til Brasilíu

Hosmany Ramos verður framseldur til Brasilíu að öllu óbreyttu.
Hosmany Ramos verður framseldur til Brasilíu að öllu óbreyttu.

Dómsmálaráðuneytið hefur fallist á framsalsbeiðni brasilískra yfirvalda varðandi Hosmany Ramos en úrskurðurinn hefur þegar verið kærður til Héraðsdóms Reykjavíkur. Úrskurðurinn var samþykktur þann 10. desember, stuttu eftir að í ljós kom að hælisbeiðni Ramos hér á landi var hafnað.

Enginn framsalssamningur er á milli landanna, engu að síður féllst ráðuneytið á framsal Hosmanys sem flúði frá Brasilíu síðustu jól. Hann kom hingað til lands frá Noregi í sumar.

Hosmany hefur tvívegis hlotið þunga dóma í Brasilíu. Árið 1998 var hann dæmdur í 24 ára fangelsi fyrir rán, mannrán og mótþróa við handtöku. Á Þorláksmessu í fyrra fékk Hosmany leyfi til þess að vera heima yfir jólin en snéri ekki aftur til afplánunar. Skömmu síðar var gefin út handtökuskipun á hendur honum.

Það var síðan 9. ágúst sem Hosmany var handtekinn á Keflavíkurflugvelli þegar hann framvísaði vegabréfi bróður síns. Síðan þá hefur hann setið í gæsluvarðhaldi.

Komist dómstólar að þeirri niðurstöður að ekki megi framselja Hosmany til Brasilíu þá er mögulegt að hann verði sendur til Frakklands en það var fyrsta landið sem tilheyrir Schengen sem hann kom til frá Suður-Ameríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×