Innlent

Orðrómurinn ekki haft áhrif á Icelandair

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Jóhannsson segir að ekki standi til að Icelandair leiti ásjár ríkisins. Mynd/ Vilhelm.
Björgólfur Jóhannsson segir að ekki standi til að Icelandair leiti ásjár ríkisins. Mynd/ Vilhelm.
Orðrómur um að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra telji að ríkið þurfi að koma að eða taka yfir rekstur Icelandair að hluta til eða öllu leyti hefur ekki haft áhrif á félagið í dag, samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum fyrirtækisins. Hermt var í fjölmiðlum í gær að Steingrímur hafi lýst þessum vilja sínum á fundi í Norðausturkjördæmi.

„Ég held ég geti sagt að við höfum nú ekki orðið varir við nein áhrif, ennþá alla vega," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. „Þetta fór kannski ekki víða í fjölmiðlum í gær, en eitthvað þó. Og bréf hans hefur væntanlega haft einhver áhrif til baka," segir Björgólfur, en fjármálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kemur að orðrómurinn sé tilhæfulaus.

Aðspurður um það hvernig rekstur Icelandair Group gangi, segir Björgólfur að um sé að ræða tólf félög og reksturinn gangi misjafnlega. Heilt yfir séu menn þó sáttir. „Og Icelandair hefur staðið þessa bylgju mjög vel og sérstaklega get ég sagt að þær aðgerðir sem félagið var í á síðasta ári hafa verið að koma því til góða," segir Björgólfur. Björgólfur segist þó kannast við að einstakir hluthafar í Icelandair standi illa. Það hafi þó ekki áhrif á rekstur félagsins.

Björgólfur segir að Icelandair hafi ekki leitað til ríkisins vegna efnahagskreppunnar og ekki standi til að gera það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×