Síðustu vikur hjá Juventus hafa verið erfiðar. Liðið féll úr Meistaradeildinni og tapaði fyrir nýliðum Bari. Í dag tapaði liðið síðan fyrir botnliði Catania á eigin heimavelli.
Þetta byrjaði ekki vel fyrir leikmenn Juventus en rúta þeirra var grýtt með fúleggjum af óánægðum stuðningsmönnun er hún renndi í hlað fyrir utan völlinn. Hópur áhorfenda snéri baki í völlinn þegar leikurinn hófst til að mótmæla frammistöðu liðsins að undanförnu.
Juventus tapaði svo 1-2 fyrir Catania og er mörgum nóg boðið. Hörðustu stuðningsmenn Juventus söfnuðust saman eftir leikinn með borða og heimtuðu forsetaskipti hjá félaginu. Jean-Claude Blanc, núverandi forseti, segist þó vera áfram og einnig þjálfarinn Ciro Ferrara.