Innlent

Íslendingar hlaupa í Sahara

Tveir íslenskir ofurhlauparar taka þátt í Sahara eyðimerkur­maraþoninu sem fram fer í Marokkó um næstu mánaðamót og verða þeir fyrstir íslenskra hlaupara til að taka þátt í þessu hlaupi. Þetta eru þeir Ágúst Kvaran og Justin Bjarnason.

Ágúst Kvaran segir að Justin Bjarnason, sem er af íslensku bergi brotinn en býr í Englandi, hafi hringt í sig nýlega og sagt sér að hann taki einnig þátt í hlaupinu. Þeir hafi síðan verið í tölvusambandi.

Sahara eyðimerkurmaraþonið er áfangahlaup þar sem hlaupið er í eyðimörkinni sunnan Atlasfjalla í suðausturhluta Marokkó. Nákvæmri hlaupaleið og vegalengd er haldið leyndri fram á síðasta dag fyrir hlaup. Hlaupin eru sex hlaup á sjö dögum, samtals um 245 kílómetrar. Fyrstu þrjá dagana eru 30 til 40 kílómetra hlaup hvern dag. Á fjórða degi er ofurmaraþon þegar hlaupin er 75-80 kílómetra leið. Fimmti dagurinn er hvíldardagur en á þeim sjötta er hlaupið mara­þon, 42,2 kílómetrar, og svo endað síðasta daginn á 15-20 kílómetra hlaupi.

Undirlag er fjölbreytt, að sögn Ágústs, allt frá lausum sandi til stórgrýtis. Hlaupið er yfir fjallgarða og í uppþornuðum árfarvegum. Keppendur bera matarbirgðir og eldunar- og svefnbúnað frá fyrsta degi fyrir allt tímabilið en fá vatn með reglulegu millibili. Dvalist er í tjaldbúðum milli hlaupa. Hiti um hádaginn getur farið upp undir fimmtíu stig og niður fyrir tíu gráður á nóttunni.

Yfir 800 keppendur eru skráðir til þátttöku, frá um 39 þjóðlöndum. Hlaupið er skipulagt af Frökkum í samvinnu við innfædda. Fylgst er með hlaupinu og það myndað af sjónvarpsstöðinni Eurosport. - ghs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×