Innlent

Hefði mátt búa til 353 kíló af amfetamíni

Fullkominn tækjabúnaður Sérfræðingur frá Interpol sagði verksmiðjuna eina þá fullkomnustu sem hann hefði séð.
Mynd/lögreglan
Fullkominn tækjabúnaður Sérfræðingur frá Interpol sagði verksmiðjuna eina þá fullkomnustu sem hann hefði séð. Mynd/lögreglan

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Jónasi Inga Ragnarssyni og Tindi Jónssyni fyrir að hafa staðið saman að framleiðslu fíkniefna í iðnaðar­húsi í Hafnarfirði. Úr upphafs­efnunum sem fundust í húsinu hefði mátt framleiða að minnsta kosti 353 kíló af amfetamíni, að því er segir í ákæru. Ákæran var birt tvímenningunum á fimmtudag.

Jónas Ingi og Tindur voru handteknir vegna málsins um miðjan október í fyrra. Á tveimur stöðum í Hafnarfirði, að Móhellu og Rauðhellu, fundust 38 kíló af svokölluðu P-2-NP-efni, sem er upphafs- eða milliefni í amfetamínframleiðslu, og þrír og hálfur lítri af svokölluðum P-2-P-vökva. Úr því hefði verið unnt að framleiða minnst 353 kíló af amfetamíni.

Þá fannst á stöðunum tveimur búnaður fyrir milljónir til fíkniefnaframleiðslu. Sérfræðingur um fíkniefnaverksmiðjur frá alþjóðalögreglunni Interpol, sem kom til landsins sérstaklega vegna málsins, sagðist aldrei hafa séð fullkomnari verksmiðju.

Til marks um umfangið var að mennirnir fluttu til landsins rúmt tonn af íblöndunarefnum.

Til viðbótar þessu er Jónas Ingi ákærður fyrir að hafa haft í vörslu sinni í öðru iðnaðar­húsnæðinu rúm átján kíló af kannabisefnum ætluðum til sölu, og að hafa átt tæp 700 grömm af amfetamíni í hinu húsinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gengst Jónas Ingi við því að eiga fíkniefnin, en neitar því hins vegar að hafa ætlað að framleiða fíkniefni úr upphafsefnunum sem fundust.

Jónas og Tindur gætu átt von á tólf ára fangelsi fyrir brotið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×