Innlent

Mannræningi mætti með mömmu í héraðsdóm

Valur Grettisson skrifar
Axel Karl Gíslason mætti með mömmu í Héraðsdóm Reykjavíkur.
Axel Karl Gíslason mætti með mömmu í Héraðsdóm Reykjavíkur.

Yngsti mannræningi Íslands, Axel Karl Gíslason, hefur verið ákærður fyrir að skipuleggja Barðastrandaránið. Hann braust ekki sjálfur inn heldur gerði hann þá Viktor Má Axelsson og Marvin Kjarval M. út af örkinni.

Þeir brutust inn til úr- og skartgripasmiðs á Barðaströndinni. Það vildi þó ekki betur til en að smiðurinn gekk í flasið á þjófununum. Viktor er ákærður fyrir að hafa þá slegið úrsmiðinn sem er á áttræðisaldri og bundið hann fastan á meðan þeir rændu verkstæðið.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Athygli vakti að Axel, sá sem sakaður er um skipulagninguna, mætti með mömmu sína í réttarsalinn.

Aðeins tveir hinna ákærðu mættu en það voru þeir Axel Karl og Viktor sem sætir gæsluvarðhaldi.

Jóhann Kristinn Jóhannsson og Marvin Kjarval M. mættu ekki í þingfestingu. Jóhann hefur verið ákærður fyrir að hafa ekið Marvin og Viktori á ránsstaðinn og til baka vitandi um fyrirætlanir þeirra.

Andvirði þýfisins sem piltarnir stálu nam tveimur milljónum króna. Úrsmiðurinn hefur gert milljón króna skaðakröfu á hendur piltanna vegna ránsins.

Allir eru þeir á tvítugs- og þrítugsaldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×