Viðskipti erlent

Íhaldsstjóri ráðlagði Bretum að leggja inn á Icesave

Michael Spencer fjármálastjóri breska Íhaldsflokksins ráðlagði sveitarstjórnum í Bretlandi að leggja fé sitt inn á Icesave reikninga Landsbankans þar í landi og Edge hjá Kaupþingi. Jafnframt þáði hann umboðslaun frá þessum bönkum fyrir hvern viðskiptavin sem hann útvegaði þeim.

Þetta kemur fram á vefsíðu breska blaðsins Daily Telegraph. Alls áttu 116 sveitarstjórnir í Bretlandi peninga inni á Icvesave og Edge er íslenska bankakerfið hrundi. Af þeim voru 51 sveitarstjórn viðskiptavinir Spencer en heildartap sveitarstjórnanna 116 vegna íslensku bankanna er talið nema 470 milljónum punda eða um 87 milljörðum kr..

Nokkur af þessum sveitarfélögum hafa kvartað undan því að hafa ekki fengið ráðgjöf um stöðu íslensku bankanna fyrr en allt var orðið um seinan. Í fréttinni sem unnin er upp úr sérstakri úttekt Independant um málið segir að sveitarstjórnin í Kent hafi fyrst fengið slíka aðvörun frá Spencer daginn áður en Glitnir var þjóðnýttur síðasta haust.

Fram kemur að 35% af þeim sveitarfélögum sem höfðu Spencer sem ráðgjafa töpuðu fé sínu í íslensku bönkunum samanborið við 20% sem nýttu sér aðra ráðgjafa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×