Innlent

Eva Joly fullkomlega vanhæf

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður.
Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður.

Eva Joly er fullkomlega vanhæf til að koma að rannsókn sérstaks saksóknara. Þetta segir Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður. Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, vekur máls á rannsókn bankahrunsins í grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann að í kjölfar bankahrunsins virðist sem flestum þyki eðlilegt að lýsa því yfir opinberlega að stjórnendur fjármálafyrirtækja og svokallaðir auðmenn séu glæpamenn.

Þá sé þess krafist að þeir verði lokaðir inni og eignir þeirra frystar. Brynjar segir að þegar hlustað sé á slíkan málflutning og þegar þeir sem fari með rannsókn og saksókn taki undir hann sé ástæða til að óttast um örlög réttarríkis. Í greininni fjallar Brynjar sérstaklega um Evu Joly, rannsóknardómarann frá Frakklandi, sem ráðin hefur verið til embættis sérstaks saksóknara. Hann segir ekkert athugavert við að leita aðstoðar erlends sérfræðings við úrlausn mála en hins vegar sé óvenjulegt að útlendir sérfræðingar séu starfsmenn embætta, sem fara með rannsókn sakamála.

Brynjar segir yfirlýsingar Evu Joly á opinberum vettvangi um að íslenskir fjármálamenn hafi skotið undan fé og að yfirgnæfandi líkur séu á því að stjórnendur bankanna hafi brotið lög veki furðu. Með yfirlýsingum af þessu tagi sé brotið gegn hlutlægnisreglu rannsakanda og ákæruvalds. Brynjar segir að það sé einsdæmi í réttarsögu Íslands að aðilar sem lýst hafi yfir sekt þeirra sem rannsaka skal komi að rannsókn sakamála.

Vegna þessa sé Eva Joly fullkomlega vanhæf til að koma að rannsókninni. Ráðningin geti hugsanlega valdið því að rannsóknin og möguleg saksókn ónýtist, í ljósi þess að sakborningar hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×