Innlent

Davíð og Haraldur á stjórnarfundi Árvakurs í gær - uppsagnir hafnar

Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen.
Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen.

Samkvæmt heimildum Vísis þá gengu Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen á fund stjórnar Árvakurs í gærdag. Þeir komu um miðbik fundarins. Ekki er ljóst hvað var rætt þar en stjórnarfundur var einnig haldinn á þriðjudaginn. Starfsmannafundur hefur verið boðaður klukkan hálf fimm í dag.

Miklar sviptingar eru hjá Morgunblaðinu en því hefur verið haldið fram að Davíð Oddsson taki við sem ritstjóri blaðsins. Þá hefur nafn Haralds Johannessen verið nefnt sem meðritstjóra.

Ekki er búið að tilkynna um nýja ritstjóra.

Uppsagnir eru hafnar á Morgunblaðinu. Samkvæmt heimildum Vísis þá er meðal annars búið að segja upp Þresti Emilssyni, Árna Jörgensen, útlitsritstjóra blaðsins, Fríðu Björk Ingvarsdóttur, ritstjóra menningarhluta, Sveini Sigurðssyni, Ingibjörgu B. Sveinsdóttur og Freysteini Jóhannssyni. Öll hafa þau unnið lengi á Morgunblaðinu.

Þá hefur fréttastjóranum Birni Vignir Sigurpálsyni verið sagt upp en hann er með einn lengsta starfsaldurinn á Morgunblaðinu.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands hefur einnig fengið uppsagnarbréf samkvæmt heimildum Vísis.

Flest ofantalinna hafa starfað sem blaðamenn en einnig verður fækkað á öðrum deildum blaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×