Lazio varð í kvöld ítalskur bikarmeistari í fimmta sinn eftir sigur á Sampdoria í vítakeppni í úrslitaleiknum á Stadio Olimpico í Róm í kvöld.
Mauro Zarate kom Lazio í 1-0 strax á fimmtu mínútu leiksins en
Giampaolo Pazzini jafnaði leikinn fyrir Sampdoria á 31. mínútu. Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum eða framlengingu og því tók við vítakeppni.
Lazio vann síðan 6-5 í vítakeppninni. Fernando Muslera varði tvær spyrnur Sampdoria og Ousmane Dabo tryggði síðan Lazio sigurinn með lokaspyrnunni.