Innlent

Fallast ekki á valdaafsal Alþingis

Þorgerður og Bjarni segja flokk sinn viljugan að breyta stjórnarskránni. Það bíði betri tíma. Fréttablaðið/anton
Þorgerður og Bjarni segja flokk sinn viljugan að breyta stjórnarskránni. Það bíði betri tíma. Fréttablaðið/anton

Hart var tekist á um breytingar á stjórnar­skránni við aðra umræðu málsins á Alþingi í gær.  Óánægja sjálfstæðismanna með frumvarp hinna stjórnmálaflokkanna fjögurra er megn. Hófu formaður og varaformaður flokksins gærdaginn á að útskýra viðhorf sitt á fundi með blaðamönnum. Sögðust þau geta fallist á eina grein frumvarpsins; þá er fjallar um hvernig breyta á stjórnarskránni. Annað vildu þingmenn flokksins ekki sjá að svo stöddu enda tíminn knappur fram að kosningum og vert að nýta hann til umræðna um brýnni viðfangsefni stjórnmálanna.

Engu að síður lýstu þau Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flokk sinn viljugan til að breyta stjórnarskránni. En það þyrfti að bíða betri tíma.

Í frumvarpinu, sem allt bendir til að verði samþykkt gegn vilja sjálfstæðismanna, er gert ráð fyrir að stjórnlagaþing starfi frá miðju næsta ári og setji lýðveldinu nýja stjórnarskrá.

Þorgerður Katrín sagði af og frá að hægt væri að fallast á slíkt; ekki kæmi til greina að Alþingi afsalaði sér valdinu til stjórnarskrárgjafar. Á hinn bóginn gæti hún hugsað sér að einhvers konar stjórnlagaþing yrði Alþingi ráðgefandi við endurskoðun stjórnar­skrárinnar.

Þá sagði hún óráð að kveða á um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskránni, rétt væri hins vegar að fjalla um slíka atkvæðagreiðslu í almennum lögum.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×