Bandaríska sendiráðið hefur tekið á leigu rúmlega 200 fermetra glæsivillu í Skerjafirðinum, nánar tiltekið í Skildinganesi 25. Eigendur villunnar eru Helga María Garðarsdóttir og Birna Geirsdóttir, eiginkona og tengdamóðir Kaupþingsprinsins Ingvars Vilhjálmssonar.
Ingvar og eiginkona hans Helga María hafa flutt sig yfir götuna í Skildinganes 44 sem er nýbyggð 450 fermetra höll á sjávarlóð.
Ingvar var einn af aðalmönnunum í Kaupþingi þegar bankinn féll. Hann átti hlutabréf í bankanum að verðmæti rúmlega tveir milljarðar við fall bankans og vakti athygli að hann breyttist skyndilega í eignarhaldsfélagið Ingvar Vilhjálmsson ehf á hluthafalista bankans daginn áður en bankinn fór í þrot í október á síðasta ári. Á sama tíma skráði hann höllina í Skildinganesi 44 á eiginkonu sína. Hann er hættur störfum hjá bankanum.