Innlent

Tveir hafa sagt sig úr stjórninni

Tveir stjórnarmenn hafa sagt sig úr stjórn Íslenskrar ættleiðingar, annar vegna þess að hún getur ekki starfað með nýrri stjórn.
Tveir stjórnarmenn hafa sagt sig úr stjórn Íslenskrar ættleiðingar, annar vegna þess að hún getur ekki starfað með nýrri stjórn.

Veruleg uppstokkun á sér stað á stjórn Íslenskrar ættleiðingar þessa dagana. Formaður félagsins náði ekki endurkjöri á aðalfundi sem haldinn var nýlega. Þá hafa tveir stjórnarmenn sagt sig úr stjórn og öllum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Annar stjórnarmaðurinn segir af sér þar sem hún sér sér ekki fært að starfa innan hinnar nýju stjórnar, samkvæmt fundargerð félagsins, og telur sig ekki njóta trausts félagsmanna, hinn segir af sér af persónulegum ástæðum.

Boðað hefur verið til aukaaðalfundar félagsins 21. apríl. Hörður Svavarsson, formaður félagsins, segir að þetta sé gert þar sem stjórnin sé ekki lengur fullskipuð. Á aukaaðalfundinum verði þess freistað að fá tvo menn til viðbótar kjörna í stjórn í stað þeirra sem hafa sagt af sér.

Stjórn Íslenskrar ættleiðingar hefur ákveðið að hækkanir á biðlista- og lokagreiðslum, sem ákveðnar höfðu verið af fyrri stjórn, komi ekki til framkvæmda í þeirri mynd sem félagsmönnum var tilkynnt með bréfi um miðjan mars heldur teknar til endurskoðunar og niðurstaðan kynnt síðar á árinu. Hörður segir að þetta sé gert vegna óvissunnar í efnahagsmálum þjóðarinnar og óvissu í greiðslugetu fjölskyldnanna í landinu.

Fyrri stjórn hafði borist bréf frá umsækjendum þar sem óskað var eftir rökstuðningi fyrir hækkun ættleiðingargjalda auk þess sem fjallað var um hana á aðalfundinum. Óánægja hefur verið með hækkunina og hvernig staðið var að henni hjá fyrri stjórn. - ghs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×