Innlent

Kalla eftir upplýsingum frá AGS um meinta leynifundi

Íslensk stjórnvöld ætla að óska eftir upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um hvort sjóðurinn standi í leyniviðræðum við Breta um Icesave deiluna. Fulltrúi sjóðsins hér á landi vísar þessu á bug.

Gordon Brown, forsætisráðherra, Bretlands fullyrti í fyrirspurnatíma í breska þinginu á miðvikudaginn að Íslensk stjórnvöld bæru ábyrgð á innistæðum í útibúi Kaupþings í Bretlandi. Bætti hann við að bresk stjórnvöld væru í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hversu hratt Íslendingar geta greitt sínar skuldir.

Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt þessum fullyrðingum enda voru útibúi Kaupþings á ábyrgð breskra stjórnvalda. Þá koma fullyrðingar Gordons Brown um viðræður við Alþjóðgjaldeyrissjóðinn á óvart enda íslenskum stjórnvöldum ekki kunnugt um slíkar viðræður.

Málið var tekið fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og í dag kallaði utanríkisráðherra fulltrúa breska sendirráðsins á sinn fund.

„Ég mótmælti með hreinskiptum hætti þessum yfirlýsingum Brown. Gat þess einnig að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem Brown tæki með þessum hætti til orða um Íslendinga," sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, eftir fundinn með fulltrúa breska sendiráðsins.

 

Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi vísaði því á bug í samtali við fréttastofu að Bretar og aðrir eigi í viðræðum við sjóðinn um skuldir íslendinga. Ríkisstjórnin hyggst þó kanna fullyrðingar breska forsætisráðherrans.

„Ríkisstjórn Íslands mun ganga eftir því að það komi tvímælalaus yfirlýsing frá AGS hvort það sé ekki alveg öruggt að slíkar viðræður hafi ekki átt sér stað," segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Bretar og Hollendingar beittu þrýstingi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðasta haust til að neyða íslendinga að samningaborðinu vegna Icesave málsins. Formaður framsóknarflokks telur einboðið að Bretar séu að leika sama leikinn á ný.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×