Innlent

Endurskoðar áform um Suðurlandsveg

Samgönguráðherra hefur ákveðið að endurskoða áform um að Suðurlandsvegur yfir Hellisheiði verði fjögurra akreina. Hann vill hins vegar hafa kaflann milli Hveragerðis og Selfoss tvo plús tvo veg og byrja á honum.

Fyrir síðustu þingkosningar kepptust stjórnmálamenn við að lofa fjögurra akreina hraðbraut milli Reykjavíkur og Selfoss. En það var þegar Íslendingar héldu að þeir ættu peninga.

"Nú höfum við ekki efni á dýrustu lausnum allsstaðar og við verðum bara að taka þetta allt til endurmats," segir Kristján L. Möller.

Kristján segir að nú sé verið að meta hvort falla eigi frá áformum um að kaflinn milli Litlu Kaffistofunnar og Hveragerðis verði tveir plús tveir vegur og fara í staðinn í tvo plús einn veg.

Annað gildir um kaflann milli Selfoss og Hveragerðis sem hann vill að verði tveir plús tveir en einnig vill hann freista þess að byrja frekar þar. En þá vaknar spurningin um hvar eigi að fá peningana. Verkið er ekki á vegaáætlun því svokölluð einkaframkvæmd átti að redda því.

Samgönguráðherra segir að skoðað verði hvort taka eigi verkefnið sem einkaframkvæmd eða hvort fjármagna þurfi það með hefðbundinni aðferð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×