Bresku barna líknarsamtökin Naomi House munu fá helming af þeim 5,7 milljónum punda sem þau áttu inn í Singer & Friedlander banka Kaupþings í Bretlandi endurgreidd eða sem svarar til um 500 miljóna kr.
Naomi House sem staðsett eru í Sutton Scotney í Hampskíri annast heimahjúkrun fyrir langveik eða dauðvona börn í nærliggjandi héruðum. Rekstur þeirra hefur verið erfiður og þurft hefur að draga úr starfsemi samtakanna eftir að Kaupþing komst í þrot í haust og bresk stjórnvöld yfirtóku Singer & Friedlander bankann.
Í frétt um málið á BBC segir að Naomi House þurfi þó að bíða töluvert eftir upphæðinni eða allt að þrjú ár. Prófessor Khalid Aziz formaður Naomi House hvetur bresk stjórnvöld til að aðstoða samtökin meðan þau bíða eftir fé sínu og hann útilokar ekki að enn frekar þurfi að draga úr starfsemi samtakanna.
Fyrir utan heimahjúkrun rekur Naomi House einnig sjúkrahótel fyrir skjólstæðinga sína. Þarf hefur einnig þurft að beita niðurskurði vegna skorts á rekstrarfé. Aziz nefnir sem dæmi nýtt slíkt hótel sem ber nafnið Jacksplace. „Upphaflega ætluðum við að vera með sjúkrarúm fyrir sex einstaklinga þar en líklega höfum við ekki ráð nema á þremur plássum," segir Aziz.