Innlent

Algjörlega ómeðvitaður um Baugsstyrk Björgvins

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. MYNd/Pjetur

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, segist þurfa að sannreyna hvort Baugur hafi styrkt Björgvin G. Sigurðsson í prófkjörsbaráttu hans fyrir síðustu kosningar til Alþingis. DV greindi frá því á miðvikudaginn að Björgvin hafi fengið 300 þúsund krónur frá félaginu en Sigurður G. Guðjónsson bar það til baka síðar um daginn. Í dag birti DV hins vegar frétt um það að sannreynt hafi verið að reikningurinn hafi verið greiddur af Baugi.

„Ég þarf að fá tækifæri til þess að skoða hvort þeir hafi fengið styrk sem mér var ekki kunnugt um," segir Sigurður G. Guðjónsson í samtali við fréttastofu. Sigurður sá um að greiða reikninga og gera upp prófkjörsbaráttu Björgvins en hann var ekki kosningastjóri eins og hann er titlaður í DV.

„Mér er algjörlega ókunnugt um það hvort að Baugur hafi borgað eitthvað inn til þessa framboðs. Ef að það hefur verið gert þarf að stemma það af og sjá hvað hefur verið gert. Ég veit nákvæmlega hvaða peningar komu inn fyrir mína tilstilli og ég hef ekki séð nein gögn um það að Baugur hafi borgað þetta. Ef svo er hef ég verið algjörlega ómeðvitaður um það," segir Sigurður og bætir við að þetta komi betur í ljós síðar í dag þegar hann hefur nálgast nauðsynlegar bankaupplýsingar.

„Ég þarf að sjá hvort 300 þúsund krónur hafi komið inn vegna þessa en það fæ ég bara að sjá á eftir, allt er þetta til í bókhaldi. Ég hef ekki logið neinu, ég sagði þeim bara að ég kannaðist ekki við það að Baugur hefði styrkt framboðið," segir Sigurður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×