Íslenski boltinn

Anna Björg: Hrikalega svekkjandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anna Björg Björnsdóttir, til vinstri.
Anna Björg Björnsdóttir, til vinstri. Mynd/Arnþór

Anna Björg Björnsdóttir, leikmaður Fylkis, leyndi ekki vonbrigðum sínum með að hafa tapað fyrsta leik sumarsins er liðið tapaði fyrir Val í kvöld, 3-2.

Þar með missti Fylkir toppsæti deildarinnar í hendur Valsmanna sem komust í 3-0 í leiknum. Anna Björg skoraði svo tvívegis og var nálægt því að jafna metin undir lokin.

„Það var hrikalega svekkjandi að ná ekki að skora þriðja markið því það var bara eitt lið á vellinum í síðari hálfleik," sagði hún. „En við vorum afar seinar í gang í kvöld."

Hún segir þó Fylki ætla sér vissulega að berjast áfram um Íslandsmeistaratitilinn. „Ekki spurning. Við ætlum að halda okkar striki enda viljum við hvergi annars staðar vera en í toppbaráttunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×