Handbolti

Valsmenn ekki á því að fara í frí

Mynd/Arnþór
"Við verðum bara að spila betur en þeir og vinna. Það er ekkert annað sem kemur til greina, annars er þetta búið," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals í samtali við Vísi þegar hann var spurður út í fjórða leik Vals og Hauka í úrslitarimmu N1 deildarinnar í kvöld.

Valsmenn eru með bakið uppi að vegg í kvöld og eru undir 2-1 í einvíginu - tap í kvöld þýðir að Haukar hirða titilinn.

"Við verðum að kalla fram það besta hjá okkur gegn sterku liði Haukanna sem var bara betra en við síðast," sagði Óskar. Valsliðið er enn taplaust í Vodafonehöllinni í vetur, en heimavöllurinn einn og sér er ekki nóg til að vinna sigur að mati Óskars.

"Við verðum auðvitað að koma bandbrjálaðir inn í þetta, spila góða vörn og markvörslu og vera skynsamir í sókninni. Ég held að þessi umræða um mikilvægi heimavallarins hafi byrjað dálítið hjá leikmönnum. Auðvitað tala fjölmiðlar eitthvað um það, en það er verra ef leikmenn eru farnir að nota þetta sem afsökun ef þeir spila illa á útivelli."

"Við höfum verið hundlélegir á útivelli og ég er raunar ekki að fara fram á meira en 5% betri leik en við höfum verið að sýna til þessa. Við verðum að verja heimavöllinn í kvöld og það er ekki fyrr en eftir það sem við getum farið að spá í að fá menn inn til að hjálpa okkur með útivallargrýluna," sagði Óskar. Hann segir engan skrekk í Valsmönnum þó allt sé undir í kvöld.

"Þetta er bara einfalt. Ef við töpum þá er þetta búið. Ég held að sé enginn ótti eða pressa á mönnum. Þeir vilja bara ekki fara í frí og það er mikilvægt að enda þetta ekki á því að tapa á heimavelli. Í framhaldinu kemur þá svo stór áskorun um að vinna Haukana á útivelli," sagði óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×