Handbolti

Halldór: Bumban fer ekki burt á þrem mánuðum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nokkrir leikmanna Gróttu þurfa að koma sér í form eins og sjá má.
Nokkrir leikmanna Gróttu þurfa að koma sér í form eins og sjá má. Mynd/Valli

Líkamlegt atgervi leikmanna Gróttuliðsins hefur vakið athygli í vetur enda líta nokkrir leikmanna liðsins ekki beint út fyrir að vera íþróttamenn í efstu deild á Íslandi.

Vísir spurði Halldór Ingólfsson, þjálfara Gróttu, hvernig stæði á þessu?

„Nei, það eru ekki allir í góðu formi en flestir eru í mjög fínu formi. Við notum mikið af skiptingum og menn eiga að vera í fullu formi til þess að klára 60 mínútur," sagði Halldór en honum var þá bent vinsamlega á það að í liðinu hans væri hreinlega feitir menn.

„Þetta eru flottir leikmenn sem spila sínar mínútur og skila þeim ágætlega," sagði Halldór en hvernig stendur á því að menn mæta til leiks í svona lélegu formi?

„Þú verður að spyrja þá," sagði Halldór en er það ekki líka á ábyrgð þjálfarans að hafa mannskapinn í formi?

„Jú, enda koma þeir til mín. Bumban fer ekki burt á þrem mánuðum. Við erum að vinna í þessu en það tekur sinn tíma að ná henni af. Menn eru að borða rétt og æfa almennilega," sagði Halldór Ingólfsson, þjálfari Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×