Innlent

„Mamma þurfti eiginlega áfallahjálp“

Systir 15 ára stúlku sem var misþyrmt í Heiðmörk í dag af sjö stúlkum segir að móðir sín hafi nánast þurft áfallahjálp eftir að hafa sótt yngstu dóttur sína illa farna af barsmíðum í Hafnarfjörð. „Mamma þurfti eiginlega áfallahjálp eftir að hafa séð hana hana," segir Hrönn Óskarsdóttir, 32 ára gömul systir stúlkunnar sem varð fyrir árásinni.

Farið var með stúlkuna í Heiðmörk í dag þar sem hún var barin illa. Hrönn segir að stúlkurnar séu á aldrinum 16 til 17 ára. Tvær þeirra höfðu sig hvað mest frammi og taldi ein þeirra sig eiga óuppgerðar sakir við fórnarlambið. Gerendurnir hótuðu stúlkunni að lokum lífláti og kröfðust þess að hún greiddi þeim 150 þúsund krónur á morgun.

Stúlkan var skilin eftir við verslunarmiðstöð í Hafnarfirði og náðu foreldrar hana í hana þangað. Í framhaldinu fóru þau með hana á slysadeild þar sem stúlkan fór meðal annars í sneiðmyndatöku. „Læknar skoðuðu hana og sögðu ótrúlegt að hún hafi ekki brotnað. Þeir sögðu að það hafi ekki þurft nema eitt högg á rangan stað til að mun verr færi," segir Hrönn sem fór með systur sinni og foreldrum til lögreglu og þar sem gert var grein fyrir árásinni.

„Mér dauðbrá að sjá hana og það er agalegt að sjá á henni andlitið sem er afmyndað," segir Hrönn. Systir sín hafi orðið fyrir virkilega fólskulegri líkamsárás og fjölskyldunni sé illa brugðið.

Hrönn segir að fjölskyldan viti hverjar stóðu að ódæðinu og að ein af stúlkunum hafi áður verið kærð fyrir líkamsárás. „Svona einstaklinga verður að stöðva."

Ekki var hægt að ljúka skýrslutöku í dag en það verður gert í fyrramálið, segir Hrönn.












Tengdar fréttir

Sjö stúlkur börðu 15 ára stúlku í Heiðmörk

Farið var með 15 ára stúlku í Heiðmörk í dag þar sem hún var barin illa. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru árásarmennirnir hópur sjö stúlkna á aldrinum 16 til 17 ára og höfðu tvær þeirra sig hvað mest frammi. Fórnarlamið var skilið eftir við verslunarmiðstöð í Hafnarfirði. Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að rannsókn málsins væri á frumstigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×