Handbolti

Andri: Ekki sáttur við að vinna bara heimaleikina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haukamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson í baráttunni í kvöld.
Haukamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson í baráttunni í kvöld. Mynd/Stefán

Haukamaðurinn Andri Stefan vill ekki verða Íslandsmeistari bara með því að vinna eingöngu heimaleikina í rimmu liðsins gegn Val um meistaratitilinn í N1-deild karla.

Haukar unnu í kvöld fimm marka sigur á Val, 29-24, í fyrsta leik liðanna um titilinn. Haukar eru með heimavallarréttinn og dugir því að vinna sína heimaleiki til að tryggja sér titilinn.

„Ég yrði alls ekki sáttur við að verða Íslandsmeistari bara með því að vinna heimaleikina. Til þess að sýna að við séum verðugir Íslandsmeistarar vil ég vinna minnst einn leik á útivelli. Þannig eru bara meistaralið sköpuð," sagði Andri eftir leikinn í kvöld en hann fór mikinn og skoraði átta mörk fyrir Hauka.

„Þetta var fyrst og fremst varnarsigur," sagði hann um leik kvöldsins. „Við vorum nokkuð skynsamir í sókninni og stöðvuðum svo hraðaupphlaupin þeirra. Við vörðumst vel og ég held að þetta hafi verið lykilatriði leiksins."

Haukar byrjuðu reyndar frekar illa í leiknum. „Það ríkti mikil spenna fyrir leikinn enda við búnir að bíða lengi eftir þessu. Við þurftum bara nokkra spretti til að hrista þennan spenning af okkur og eftir það fórum við að spila okkar leik."

Næsti leikur liðanna fer fram í Vodafone-höllinni á miðvikudagskvöldið. „Ég held að við mætum öðruvísi Valsliði þá heldur en við gerðum nú í kvöld. Ef við vorum 100 prósent í kvöld þurfum við að vera 150 prósent í þeim leik bara til að eiga séns."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×