Innlent

Óttast að foreldrar fari fyrr út á vinnumarkaðinn

Þorbjörg Helga, formaður leikskólaráðs sem nú er í fæðingarorlofi, óttast að foreldrar fari fyrr út á vinnumarkaðinn vegna skerðingarinnar og kostnaður bitni á sveitarfélögunum.
Þorbjörg Helga, formaður leikskólaráðs sem nú er í fæðingarorlofi, óttast að foreldrar fari fyrr út á vinnumarkaðinn vegna skerðingarinnar og kostnaður bitni á sveitarfélögunum. Mynd/GVA
BHM telur skerðingu fæðingarorlofsgreiðslna ógna jafnrétti og vega að réttindum barna og fjölskyldna. Formaður Leikskólaráðs Reykjavíkurborgar sem nú er í fæðingarorlofi óttast að foreldrar fari fyrr út á vinnumarkaðinn vegna skerðingarinnar og kostnaður bitni á sveitarfélögunum.

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verða lækkaðar úr 350 þúsund krónum á mánuði í 300 þúsund, samkvæmt drögum að frumvarpi sem Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í gær. Samkvæmt því verða bæturnar aldrei hærri en 75% af launum þess sem tekur fæðingarorlof og er með laun yfir 200 þúsundum í stað 80% áður. Hins vegar verði fæðingarorlofstíminn sá sami og áður.

Bandalag háskólamanna lýsir andstöðu við skerðinguna og segir þetta skref afturábak í jafnréttismálum. Guðlaug Kristjánsdóttir er formaður BHM.

„Þetta er þriðja atlagan að þessum réttindum á einu ári. Okkur þykir nóg til komið. Þetta er til þess gert að takmarka möguleika ferða á að taka sitt orlof og vinnur þannig gegn lögum um fæðingarorlof þar sem fyrirheitin eru stuðla að jafnri þátttöku foreldra í uppeldi barna og tryggja jafna stöðu á vinnumarkaði. Þannig að okkur þykir þetta vera skref afturábak," segir Guðlaug.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins og formaður leikskólaráðs í fæðingarorlofi, óttast að kostnaður færist yfir á sveitarfélögin.

„Það er augljóst að það færist aukinn kostnaður við þjónustu við þessi yngstu börn yfir á sveitarfélögin því það er líklegt að foreldrar fari fyrr að vinna þegar fæðingarorlofsgreiðslunnar lækka svona," segir borgarfulltrúinn.

„Það fer aukinn þrýstingur á sveitarfélögin að þjónusta þessi yngstu börn sem þurfa að jafnaði frekar dýr úrræði. Það sem er svo alvarlegt í þessu er að ríkið er að spara á einum stað en lendir á öðrum aðila. Það eru ekki nógu góð vinnubrögð," segir Þorbjörg.

Þá hefur stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands sent frá sér ályktun þar sem lýst er andstöðu við frekari skerðingu réttinda í fæðingarorlofi. Félagið segir mikilvægt að tryggja barni tengsl og samveru við báða foreldra og gera báðum foreldrum mögulegt að samræma fjölskyldu og atvinnulíf.


Tengdar fréttir

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlof lækkaðar

Hámarks greiðslur í fæðingarorlofi verða lækkaðar úr 350 þúsund krónum á mánuði í 300 þúsund, samkvæmt drögum að frumvarpi sem félagsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun.

BHM andmælir frekari skerðingum á fæðingarorlofi

Bandalag háskólamanna lýsir andstöðu við frekari skerðingu réttinda í fæðingarorlofi, þar sem slíkt er skref afturábak í jafnréttismálum og vegur að réttindum barna og fjölskyldna. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar BHM en þar er bent á að markmið fæðingarorlofs sé að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×