Sport

Bergur og Ásdís sköruðu fram úr í frjálsum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Bergur Ingi Pétursson og Ásís Hjálmsdóttir voru valin af stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands sem frjálsíþróttafólk ársins 2009. Bergur er úr FH en Ásdís úr Ármanni. Bæði eru 24 ára gömul.



Hér má lesa umsögn frjálsíþróttasambandsins um tvíeykið af heimasíðu þess:



Ásdís Hjálmsdóttir (24), spjótkastari úr Ármanni, er frjálsíþróttakona ársins. Ásdís hefur átt góðu gengi að fagna í ár, en hún tvíbætti eigið Íslandsmet þegar hún varð fyrst kvenna á Norðurlöndunum til þess að kasta spjóti yfir 60m. Íslandsmet hennar er 61,37m, sem hún setti á JJ móti Ármanns á Laugardalsvelli.

Ásdís er í 22. öðru sæti á heimslista ársins, sem er 14 sætum ofar en árinu áður. Hún sigraði spjótkastkeppnina á Smáþjóðleikunum á Kýpur og setti jafnframt smáþjóðamet. Ásdís var annar tveggja keppenda Íslands á Heimsmeistaramótinu í Berlín í sumar og endaði hún í 21 sæti.

Bergur Ingi Pétursson (24), sleggjukastari úr FH, er frjálsíþróttakarl ársins 2009. Bergur er í 60. sæti á heimslista ársins og hefur stimplað sig inn sem besti sleggjukastari landsins. Hann keppti á fjölmörgum alþjóðlegum mótum á árinu og kastaði meðal annars sitt lengsta kast á móti í Halle í Þýskalandi, 73,00m.

Á Smáþjóðaleikunum á Kýpur sigraði Bergur með kasti uppá 70,60m sem er smáþjóðamet. Hann átti góðu gengi að fagna í Þýskalandi, því næst lengsta kast hans var á móti í Crumbach þar sem hann kastaði 72,65m. Þá var hann annar tveggja keppenda Íslands á Heimsmeistaramótinu í Berlín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×