Viðskipti erlent

Vilja hækka olíuverð

Líklegt þykir að OPEC-ríkin ætli að þrýsta verðinu upp með framleiðsluskerðingu eftir rúma viku. Fréttablaðið/afp
Líklegt þykir að OPEC-ríkin ætli að þrýsta verðinu upp með framleiðsluskerðingu eftir rúma viku. Fréttablaðið/afp

Líklegt þykir að forsvarsmenn Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) ákveði að draga úr olíuframleiðslu aðildarríkjanna í því augnamiði að hækka heimsmarkaðsverð á hráolíu. Þetta hefur Bloomberg-fréttaveitan eftir áreiðanlegum heimildum í gær.

OPEC-ríkin, sem sinna um þriðjungi af heimsframleiðslunni, funda um aðgerðir til að sporna við frekari verðlækkun á hráolíu í Vín í Austurríki á sunnudag í næstu viku.

Bloomberg hefur eftir greinendum helstu banka Evrópu að olíuverðið geti stigið hratt upp í kjölfarið, fari jafnvel yfir 50 dali á tunnu innan tveggja mánaða.

Olíuverðið fór hæst í rúma 147 dali á tunnu í júlí í fyrrasumar. Við tók snarpt verðfall samhliða miklum samdrætti í einkaneyslu en verðið náði 35 dölum á tunnu um áramót.

Bloomberg bendir á að helsta tæki OPEC-ríkjanna gegn verðfalli séu framleiðslukvótar. Þeim hefur verið beitt ítrekað síðan gæta tók verðlækkunar og hefur dregið úr olíuframleiðslu aðildarríkjanna um þrettán prósent síðan í september, að sögn Bloomberg. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×