Innlent

Ófyrirséður kostnaður nærri milljarði

Ingimar Karl Helgason skrifar

Gert er ráð fyrir að ófyrirséður kostnaður Reykjavíkurborgar verði sjöhundruð og níutíu milljónir króna á næsta ári, sem er þreföldun miðað við áætlun þessa árs. Borgarfulltrúi Vinstri-grænna telur að hluti fjárins fari í kosningabaráttu meirihlutaflokkanna í vor. Meirihlutaflokkarnir hafa þegar ákveðið að verðbæta fjárhagsaðstoð borgarinnar fyrir næsta ár.

Í frumvarpi til fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár vekur athygli að gert er ráð fyrir all hárri fjárhæð undir liðnum ófyrirséð útgjöld. Gert er ráð fyrir 790 milljónum króna í þennan lið á næsta ári, en í endanlegri áætlun þessa árs er gert ráð fyrir 260 milljónum króna í liðinn og í allt fóru 370 milljónir í þennan lið í fyrra.

Í svörum frá borginni kemur fram að liðurinn ófyrirsjáanleg útgjöld sé breytilegur milli ára og yfirleitt sé mun hærri tala í frumvarpi til fjárhagsáætlunar en raunin sé hverju sinni. Til að mynda hafi verið gert ráð fyrir næstum milljarði í þennan lið árið 2008 í upphaflegu frumvarpi til fjárhagsáætlunar.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna segir að enda þótt á þessum tímum sé gott að hafa borð fyrir báru, þá sé gert ráð fyrir heldur hárri upphæð í þennan lið nú.

Til stendur að ræða endanlega fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á fundir borgarstjórnar á morgun. Eftir því sem fréttastofan kemst næst hefur meirihluti sjálfstæðis- og framsóknarflokks þegar ákveðið að verja hluta fjárins undir liðnum ófyrirséð útgjöld til að verðbæta fjárhagsaðstoð borgarinnar; það þýðir að slíkar greiðslur hættu að hækka úr um 115 þúsundum króna á mánuði upp í 125.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×