Handbolti

HK-menn fyrstir til að vinna Hauka í vetur - rassskelltu meistarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinbjörn Pétursson átti frábæran leik í marki HK.
Sveinbjörn Pétursson átti frábæran leik í marki HK. Mynd/Stefán
HK vann glæsilegan sjö marka sigur á Íslandsmeisturum Hauka, 26-19, í N1-deild karla í handbolta í kvöld en þetta var fyrsta tap Haukanna á þessu tímabili. HK sá til þess að Haukar eru bara með þriggja marka forskot þegar deildin fer í jóla- og EM-frí en næstu leikir eru ekki fyrr en í febrúar.

HK náði frumkvæðinu strax í fyrri hálfleik og var 12-6 yfir í hálfleik. HK náði síðan mest tíu marka forskoti í seinni hálfleik, Haukarnir minnkuðu muninn í fjögur mörk en komust ekki nær og urðu að sætta sig við fyrsta tap tímabilsins í síðasta leik fyrir frí.

Sveinbjörn Pétursson átti frábæran leik í marki HK og lokaði markinu fyrir meistarana á löngum tímum í leiknum. Sveinbjörn varði alls 23 skot en markahæstur hjá HK var Valdimar Þórsson með 7 mörk. Atli Ævar Ingólfsson skoraði 6 mörk fyrir HK.

HK vann þarna sinn fjórða sigur í röð í deild og bikar en liðið komst fyrir vikið upp að hlið FH, Akureyrar og Vals í 2. til 5. sæti deildarinnar. HK er með slakasta árangurinn í innbyrðisviðureignum þessara liða og kemst því ekki í deildarbikarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×