Viðskipti innlent

Ný hlutabréfavísitala innleidd

Frá og með deginum í dag mun hefjast útreikningur á OMXI6 nýrri hlutabréfavísitölu á NASDAQ OMX Iceland sem tekur við hlutverki OMXI15. ,,Nýir tímar kalla á nýja vísitölu. OMXI6 Úrvalsvísitalan miðar að því að búa í haginn fyrir endurreisn hlutabréfamarkaðarins á Íslandi”, segir Þórður Friðjónsson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland í tilkynningu.

,,Vísitalan inniheldur færri félög en OMXI15 í þágu seljanleika og mun betur þjóna því hlutverki að vera viðmið fyrir fjárfesta. Með þessu fær hún aukið aðdráttarafl í augum þeirra við þær aðstæður sem nú ríkja. Vísitalan endurspeglar að markaðurinn einkennist nú af framleiðslufyrirtækjum öðrum fremur,” segir Þórður. 

OMXI6 Úrvalsvísitalan samanstendur af sex félögum sem mest viðskipti eru með á NASDAQ OMX Iceland. Tilgangur vísitölunnar er að endurspegla þróun á íslenskum hlutabréfamarkaði og vera gott fjárfestingartæki fyrir alla fjárfesta, sjóðsstjóra jafnt sem aðra markaðsaðila.

18 félög eru skráð á NASDAQ OMX Iceland. Valið verður í OMXI6 Úrvalsvísitöluna tvisvar á ári og tekur ný samsetning gildi 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Vægi félaga í vísitölunni ræðst af flotleiðréttu markaðsvirði og verður vísitalan reiknuð í íslenskum krónum og evrum. Útreikningur vísitölunnar hófst í dag og var upphafsgildi hennar 1000 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×