Innlent

Berserksgangur á Barðaströnd hluti af fjölskylduerjum - myndir

Maðurinn sem handtekinn var af sérsveit lögreglunnar á Barðaströnd í gærnótt, rústaði hús sem er í eigu systra hans. Systurnar höfðu nýverið keypt húsið af móður sinni. Mágur mannsins segir börnin sín ekki lengur þora að koma með barnabörnin á staðinn vegna mannsins. Maðurinn er laus úr haldi lögreglu.

„Það er vægast sagt allt í rúst," segir Þór Árnason, eiginmaður annars eigenda húss sem maðurinn á Barðaströnd lagði í rúst í fyrrinótt. Húsið stendur á jörðinni Haukabergi en jörðin er í eigu tengdamóður Þórs, sem er móðir mannsins. Húsið sjálft er í eigu konu Þórs og systur hennar en maðurinn er bróðir þeirra og því mágur Þórs. Þær systur keyptu húsið fyrir skömmu af móður sinni en síðan það spurðist út að systurnar hyggðust kaupa húsið hefur maðurinn ekki látið þær í friði að sögn Þórs.

Rétt eftir miðnætti síðustu nótt barst Lögreglunni á Vestfjörðum tilkynning að maður gengi berserksgang á Barðaströnd og væri hann vopnaður skotvopni. Var óskað eftir aðstoð sérsveitar Ríkislögreglustjóra sem naut aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar við að komast á vettvang. Jafnframt fóru lögreglumenn frá Patreksfirði og Ísafirði á vettvang. Sérsveit lögreglu náði svo að yfirbuga manninn.

„Hann er búinn að hóta okkur alveg frá því að við keyptum þetta hús," segir Þór. Hann segir mág sinn þó ekki hafa hótað þeim ofbeldi. „En hann hefur hótað því að við skildum aldrei fá frið þarna." Þór segir mælinn fyrir löngu vera orðinn fullan en í þetta skiptið hafi steininn tekið úr.

Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu í svipuðu máli en árið 2002 yfirbugaði Víkingasveitin hann á heimili sínu á Álftanesi eftir að talið var að hann hefði hleypt af tveimur skotum og ógnað gestum í húsinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu kom þó síðar í ljós að engum skotum hafði verið hleypt af.

Maðurinn hélt samkvæmt heimildum fréttastofu byssuleyfi sínu og furðar Þór sig á því. „Ég var í beinu sambandi við þá á vettvangi meðan á umsátrinu stóð í það skiptið og var með hann sjálfan í símanum þegar Víkingasveitin tók hann. Það er með ólíkindum að þessi maður skuli vera með aðgang að svona stórum vopnum eins og hann er með. Það er eitthvað sem þarf að skoða."

Þór segir að manninum hafi tekist nokkuð vel til í að gera dvöl þeirra á Haukabergi óbærilega. Hann segir að börnin hans séu hætt að þora að koma með sín börn þangað af ótta við manninn.

Þór segir mág sinn hafa átt í deilum við bróður sinn áður en systurnar keypu húsið að Haukabergi, og meðal annars klippt á rafmagnslagnir að bústað bróður síns. Eftir að systurnar keyptu húsið hafi bræðurnir hinsvegar snúið bökum saman gegn systrunum.

Húsið að Haukabergi er í skelfilegu ásigkomulagi eftir atburði næturinnar. Aðspurður hvað mágur hans hefði skemmt svaraði Þór: „Það er kannski spurning hvað hann skemmdi ekki. Hann nánast lagði allt í rúst. Hann braut nánast hverja einustu rúðu í húsinu og inni rústaði hann nærri öllu. Okkur sýnist að hann hafi farið þarna um með kúbein, hann stakk í gegnum hurðar, velti niður ísskáp, braut allt leirtau. Hann sópaði niður vöskum og klósetti - öllu. Það er nánast ekkert heilt."

Þór segir að mágur sinn eigi hús sem standi ólöglega á jörð Haukabergs. „Hann reisir þetta og segir að þetta sé stöðuhús en stöðuhús er það sem er á hjólum," segir Þór en húsið sem um ræðir er reist á steypustöplum. Þór segist hafa spurt byggingafulltrúa sveitarinnar hvort að hús mágs hans væri ólöglega byggt og hann hafi talið svo vera. Byggingaryfirvöld sveitarinnar aðhafist hinsvegar ekkert.

Þór segist hafa rætt við lögregluna á Patreksfirði í gær til að fá að vita hvort mági hans yrði sleppt að loknum yfirheyrslum. „Ég vildi bara vera viss því ekki vil ég fá hann inneftir þegar hann sleppur. Þeir sögðu að þeir gætu ekki haldið honum lengur eftir að búið væri að yfirheyra hann."

Aðspurður hvort hans fólk óttaðist gjörðir mannsins héðan af segir Þór: „Ég held að fólki standi ekki á sama, sérstaklega gagnvart börnunum."










Tengdar fréttir

Víkingasveit yfirbugaði Barðastrandarbyssumann 2002

Maðurinn sem sérsveit lögreglu yfirbugaði á Barðaströnd í morgun hefur áður komið við sögu lögreglu vegna svipaðra mála. Hann var yfirbugaður af Víkingasveit lögreglunnar í ágúst 2002 eftir þriggja klukkustunda umsátur fyrir utan heimili mannsins á Álftanesi.

Byssumaður gekk berserksgang á Barðaströnd

Lögreglunni á vestfjörðum barst tilkynning um miðnætti að maður gengi berserksgang á Barðaströnd, vopnaður skotvopni. Lögreglan á Ísafirði og Patreksfirði fór á staðinn en einnig var óskað aðstoðar sérsveitar lögreglu sem flutt var vestur með þyrlu Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×