Innlent

Krónan muni veikjast og allir halda að sér höndum

Jón Ísak Ragnarsson og Heimir Már Pétursson skrifa
Síðasti Ríkisráðsfundur Bjarna Benediktssonar á Bessastöðum
Síðasti Ríkisráðsfundur Bjarna Benediktssonar á Bessastöðum Vísir/Vilhelm

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fráfarandi menningar- og viðskiptaráðherra, segir að framdundan sé mikil óvissa á gjaldeyrismarkaði, nú þegar ný ríkisstjórn hefur boðað stóraukna gjaldtöku á stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, ferðaþjónustuna.

„Skilaboðin sem ríkisstjórnin var með hér rétt áðan eru þau, að það eigi að stórauka gjaldtöku á stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, og það sem gerist er að það munu allir halda að sér höndum, bæði í ferðaþjónustunni, og í sjávarútveginum,“ sagði Lilja á Bessastöðum fyrr í dag.

Þetta hafi í för með sér minni hagvöxt, minni gjaldeyristekjur, veikari krónu og erfiðara verði að fá tekjur inn í þjóðarbúið.

Ríkisstjórnin leggi í óvissuferð

Lilja segir að fráfarandi ríkisstjórn hafi verið að styðja ferðaþjónustuna með því að hafa hana í sérstöku ráðuneyti með menningunni, og búið þannig til tekjur.

„Við erum búin að vera auka við hagvöxt, til þess að halda þessu öllu gangandi, það að leggja niður eitt ráðuneyti, er bara pínu brot við hliðina á þeirri óvissu, og þessari óvissuferð sem ríkisstjórnin er að leggja í.“

„Ég er ánægð með það að það séu nýir tímar að koma hjá mér persónulega, en sem borgari í þessu landi, þá get ég lofað ykkur því, að nú verður óvissa á gjaldeyrismarkaði þar til þau útfæra þetta.“

Ferðaþjónustan sé tiltölulega ný atvinnugrein og þurfi festu í kringum sig.

„Ég verð bara að segja það sem hagfræðingur, að ég var hissa að sjá þrjá formenn fara yfir þetta og segja heyrðu við erum hugsanlega að hugsa um komugjald. Við erum líka að hugsa um að setja auðlindagjald á ferðaþjónustuna, og fara yfir svona marga þætti.“

Allir muni halda að sér höndum við þessar aðstæður, og hér verði minni hagvöxtur og minni fjárfesting.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×