Handbolti

Einar Andri: Karaktersigur hjá okkur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Einar Andri Einarsson, þjálfari FH.
Einar Andri Einarsson, þjálfari FH. Fréttablaðið/Heiða
Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, var virkilega ánægður með sigur sinna manna á Akureyri í kvöld. FH vann Akureyri með þremur mörkum, 27-30.

„Við missum svolítið tökin á okkar leik um miðjan fyrri hálfleik. Þá erum við að fá tvær brottvísanir í sókninni, ég fékk eina og við vorum lengi manni undir. Við misstum hausinn en náðum að róa okkur niður í hálfleik," sagði Einar og hélt áfram.

„Við breyttum um vörn í seinni hálfleiknum og mér fannst það gera gæfumuninn," sagði Einar en sókn Akureyringar var mjög slök á löngum köflum. Að hluta til skrifast það að sjálfsögðu á góða vörn FH-inga.

Markvarsla Pálmars Péturssonar lagði svo grunninn að 27-30 sigri FH. „Lykilatriði var að Pálmar fór að verja í byrjun seinni hálfleiks og þá kom ákveðið öryggi á vörnina. Það er frábært að taka bæði stigin hér á Akureyri, þetta var flottur karakter hjá okkur," sagði þjálfarinn.

Ásbjörn Friðriksson var að spila gegn sínu gamla félagi og lék vel, skoraði þrjú mörk úr fimm skotum. „Þetta var frábær sigur. Það er ekki sjálfsagt að koma til baka þremur mörkum undir og vinna leikinn. En við fengum markvörsluna með okkur í seinni hálfleik og þá var þetta fljótt að snúast við," sagði Ásbjörn sem naut sín vel.

„Það er frábært að spila hérna, alltaf gott að spila á Akureyri fyrir framan þessa áhorfendur," sagði Ásbjörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×