Fótbolti

Johan Cruyff: Barcelona er búið að ná markmiðum tímabilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Cruyff var alltaf undir smásjánni þegar hann þjálfaði Barcelona.
Johan Cruyff var alltaf undir smásjánni þegar hann þjálfaði Barcelona. Mynd/GettyImages
Ein helsta hetja hollensku knattspyrnusögunnar og fyrrum leikmaður og þjálfari Barcelona, Johann Cruyff, segir árangur Barcelona á tímabilinu sé frábær hvernig sem úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fari í næstu viku.

Barcelona varð tvöfaldur meistari þegar Real Madrid tapaði á móti Villarreal um helgina en liðið hafði tryggt sér spænska bikarinn með sigri á Athletic Bilbao nokkrum dögum áður.

Þetta er búin að vera frábær frumraun hjá þjálfaranum Pep Guardiola en hann gæti orðið fyrsti Barca-þjálfarinn til að vinna þrennuna og það á sínu fyrsta tímabili með liðið.

Cruyff segir að leikmenn Barcelona geti verið stoltir af tímabilinu og þá skipti engu hver úrslitin verði í leiknum á móti Manchester United á Stadio Olimpico í Róm.

„Það stórkostlega við Barcelona-liðið er að þeir eru þegar búnir að vinna tvennuna, þeir eru komnir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og þeir hafa spilað frábæran fótbolta, sagði Johan Cruyff.

„Það yrði ótrúlegur og einstakur árangur ef þeir ná að vinna þrennuna 27. maí. Takist það ekki þýðir það aðeins að það er hægt að gera aðeins betur á næsta tímabili," sagði Cruyff.

Barcelona vann Evrópukeppni Meistaraliða undir stjórn Johan Cruyff árið 1992. Liðið vann þá 1-0 sigur á ítalska liðinu Sampdoria í úrslitaleiknum og var það landi hans Ronald Koeman sem skoraði sigurmarkið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×