Innlent

Segir sjávarútvegsráðherra misnota valdheimildir

Árni Finnsson
Árni Finnsson

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtakanna vandar Einari K. Guðfinnssyni fráfarandi sjávarútvegsráðherra ekki kveðjurnar. Einar gaf út veiðiheimildir fyrir hrefnur og langreyðar til næstu fimm ára í morgun, samtals 150 hrefnur. Árni bjóst við að Einar gæfi kannski út heimildir fyrir 20 hrefnur en þetta kom honum á óvart. Spilling og misnotkun á valdi segir Árni.

„Þetta er spilling og hann er með þessu að misnota sér valdheimildir og í raun að stunda skemmdarverkastarfsemi. Hann er að eyðileggja fyrir þeirri ríkisstjórn sem er að taka við völdum og hann er með þessu að skemma ímynd Íslands og fyrir samskiptum Íslands við umheiminn, og þá sérstaklega evrópusambandsríkin," segir Árni.

„Hann er að þjónusta það útgerðarvald sem hann hefur beygt sig í duftið fyrir hingað til. Og þá er ég að tala um kvótakóngana sem hann ætlaði eitt sinn að takast á við en gafst upp þegar hann komst í embætti. Þetta lýsir ekki miklum manndómi."

Árni segir að fáránlegast í þessu öllu saman sé að gefnar séu út veiðiheimildir til næstu fimm ára sem staðfesti það að Einar sjái ekki fram á komast í ríkisstjórn næstu fjögur árin.

„Ég er mjög hissa og það er skrýtið að hann skuli gera þetta núna þegar hann er að bíða eftir því að vera leystur af. Hver svo sem það verður sem tekur við af honum þá von ég að sá hafi dug til þess að afnema þessa ákvörðun."




Tengdar fréttir

Gefur út veiðiheimildir fyrir hrefnur og langreyðar

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag gefið út reglugerð um veiðar á hrefnu og langreyði á árunum 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013. Leyfilegur heildarafli skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×