Fari svo að Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn verður hún líklegast fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann í heiminum. Maki Jóhönnu er Jónína Leósdóttir blaðamaður samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis.
„Við munum ekki eftir neinum öðrum samkynhneigðum forsætisráðherra svona í fljótu bragði," segir Lárus Ari Knútsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, sem eru hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi. Lárus segir að Samtökin ´78 séu þverpólitísks eðlis og taki málefni fram yfir dægurþras stjórnmálanna. „Það er auðvitað ánægjulegt að sjá að ekki er spurt að kynhneigð þegar skipað er í æðstu embætti þjóðarinnar," segir Lárus.
„Þetta kemur svo sem ekkert á óvart þar sem að íslensk löggjöf um réttindi samkynhneigðra er á meðal þeirra framsæknustu í heiminum," segir Lárus. Hann segir að enn eigi þó eftir að bæta réttindastöðu transgenders fólks á Íslandi auk þess sem að Samtökin ´78 hafi barist fyrir því að einungis verði ein hjúskaparlöggjöf í landinu sem gildi jafnt fyrir gagn- og samkynhneigða.
Eins og fram hefur komið verður Jóhanna jafnframt fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi.
