Skoðun

Forsetinn og Icesave

Sigurður Líndal skrifar um Icesave-málið.

Nú hefur synjunarvald forseta enn komizt á dagskrá og að þessu sinni er tilefni að líta til tveggja fordæma. Hið fyrra var mótað með yfirlýsingu forseta dags. 2. júní 2004 þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Þar skírskotaði hann meðal annars til þess hversu mikilvægt væri að lagasetning um fjölmiðla styddist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenna sátt um vinnubrögð og niðurstöðu. Skort hafi samhljóm sem þurfi að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli og ekki sé hollt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja í svo mikilvægu máli. Slík gjá verði bezt brúuð með því að þjóðin meti lagafrumvarpið í þjóðar­atkvæðagreiðslu.

Hið síðara er yfirlýsing forseta dags. 2. september 2009 þegar hann staðfesti frumvarp um ríkisábyrgð á greiðslum til brezkra og hollenzkra innistæðueigenda hjá Landsbanka Íslands sem Alþingi samþykkti 28. ágúst 2009. Í lögunum, sem víðtæk samstaða var um, voru margvíslegir fyrirvarar, m.a. um gildistíma ábyrgðarinnar, um efnahagsleg viðmið og niðurfellingu ábyrgðar ef þar til bær aðili úrskurðaði að íslenzka ríkið bæri ekki þá skyldu. Í yfirlýsingu forseta sagði síðan: „Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð." Með sérstakri vísan til fyrirvaranna ákvað forseti að staðfesta lögin.

Í fyrri yfirlýsingu forseta er sérstaklega skírskotað til þess að ekki sé farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slík gjá verði bezt brúuð með því að þjóðin meti lagafrumvarpið um fjölmiðla í þjóðaratkvæðagreiðslu og því hafi hann ákveðið að synja lögunum staðfestingar. - Í síðari yfirlýsingunni er sérstaklega skírskotað til fyrirvara Alþingis og víðtækrar samstöðu um þá.

Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir telja andstæðingar þess að fyrirvarar núgildandi laga hafi í reynd verið felldir brott, en stuðningsmenn frumvarpsins andmæla og telja að enn séu þar viðhlítandi varnaglar. Án þess að það verði rætt hér, fer ekki milli mála að lítið hald virðist í því sem eftir kann að standa og raunar mikil óvissa um hverjar skuldbindingar Íslendingar taka á sig.

Á þessari stundu er allt óvíst um afdrif Icesave-frumvarpsins, en á hvorn veg sem fer er ljóst að mjótt verður á munum. Ef marka má skoðanakannanir virðist ríflegur meirihluti þjóðarinnar vera því andvígur, þannig að djúp gjá virðist vera milli þings, þ. e. meirihluta þings, og þjóðar ef frumvarpið nær samþykki eins og forseti taldi að verið hefði við setningu fjölmiðlalaganna. Við samanburð verður þó að gæta þess að fjölmiðlamálið var innanríkismál, en Icesave-málið er milliríkjamál, þannig að málin eru ekki sambærileg. Gjáin milli þings og þjóðar hefur hins vegar ekki verið brúuð og fyrirvarar að mestu eða öllu leyti brott fallnir.

Og nú er spurningin hvernig forseti bregzt við þegar kemur til kasta hans að staðfesta frumvarpið og þá höfð í huga framangreind viðbrögð hans.

Hugsanlega telur hann eitthvert hald í frumvarpinu eins og það liggur fyrir, en annað vegur þó vafalaust þyngra - hvort rétt sé að leggja mál sem lúta að lagaheimild til samningsgerðar við önnur ríki undir þjóðaratkvæði. Slíkt hlýtur að valda óvissu og truflunum í samskiptum ríkja. Í stjórnarskrá Dana er svo mælt að 1/3 þingmanna geti krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem þingið hefur samþykkt svo sem nánar greinir í 42. gr., en þar eru lagafrumvörp til framkvæmdar á gildum skuldbindingum samkvæmt þjóðréttarsamningum undanskilin. Nú skal ekki fullyrt um það hvort greinin ætti samkvæmt orðum sínum við Icesave-málið ef hún gilti hér á landi, en hún sýnir eigi að síður að þjóðréttarskuldbindingar teljast almennt ekki henta til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hitt er svo annað mál að Icesave-málið er ekkert venjulegt milliríkjamál.

Höfundur er lagaprófessor.

 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×