Erlent

Karadzic nýtur ekki friðhelgi

Óli Tynes skrifar
Radovan Karadzic, leiðtogi Serba í Bosníu.
Radovan Karadzic, leiðtogi Serba í Bosníu.

Dómarar við Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna höfnuðu því í dag að Radovan Karadzic leiðtogi Bosníuserba nyti friðhelgi.

Karadzic hefur verið ákærður í ellefu liðum fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Hann var handtekinn á síðasta ári eftir ellefu ár í felum.

Karadzic heldur því fram að Richard Holbrook samningamaður Bandaríkjanna í Bosníu hafi lofað sér friðhelgi árið 1996, gegn því að hann hyrfi úr opinberu lífi. Holbrook hefur ítrekað neitað þessu.

Úrskurður dómaranna var sá að jafnvel þótt hægt væri að sanna að um þetta hefði náðst samkomulag þá skerti það lögsögu dómstólsins ekki á nokkurn hátt.

Úrskurður dómstólsins er endanlegur og bindur enda á tilraunir Karadzics til þess að losna undan ákærunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×