Skoðun

Verðum við menntaðri eftir kreppuna?

Ánægjulegt var að fá að taka þátt í upphafi þjóðfundarins í Laugardalshöll og enn ánægjulegra var að sjá þá miklu áherslu sem fundurinn lagði á menntun sem eina af mikilvægustu leiðunum út úr þeim þrengingum sem við erum nú í. Menntun er grundvallaratriði í uppbyggingu þjóðarinnar, bæði inn á við og út á við.

Samspil menntakerfis og félagslegs kerfisÁ síðustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á að efla háskólakerfið. Fleiri Íslendingar ljúka nú háskólanámi en áður og allt háskólastigið hefur stækkað mjög að umfangi, jafnvel svo að sumum þykir nóg um. Á sama tíma hefur framhaldsskólastigið fallið í skuggann, bæði hvað varðar inntak menntunar og fjármögnun. Meðal annars þess vegna var farið fram á minni hagræðingu hjá framhaldsskólum en í háskólum.

Á tímum mikils atvinnuleysis er mikilvægt að huga að samspili menntakerfisins og hins félagslega kerfis. Í góðu samstarfi við félagsmálaráðherra var í haust stigið mikilvægt skref til að hvetja fólk til að sækja sér menntun. Þegar ný ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs og Samfylkingar tók við í byrjun febrúar var eitt af viðfangsefnum hennar sá mikli munur sem var á grunnframfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna og atvinnuleysisbótum en þá var grunnframfærslan 100 þúsund krónur en atvinnuleysisbætur eftir skatta um 135-140 þúsund.

Mikilvægt skrefEftir fyrstu yfirferð mennta- og félagsmálaráðuneytis var niðurstaðan að torvelt væri að færa fjármuni á milli þessara kerfa, menntakerfisins og hins félagslega, en eftir kosningar í vor óskaði ég eftir því við félagsmálaráðherra að setja þessa vinnu af stað að nýju. Í sumar sátu fulltrúar okkar með fulltrúum LÍN og Vinnumálastofnunar og fundu leiðir til að hækka grunnframfærslu námslána um 20% og greiða það með sparnaði annars staðar í kerfinu. Tel ég það skref gríðarlega mikilvægt til að stuðla að auknu jafnrétti til náms og einnig til að hækka menntunarstig þjóðarinnar.

Í haust settum við félagsmálaráðherra síðan af stað vinnu til að kanna frekara samspil atvinnuleysistryggingakerfisins og menntakerfisins. Hefur sú vinna gengið vel og er von á skýrslu innan tíðar.

Eitt af því sem vakið hefur áhyggjur mínar er hið mikla brottfall sem er í framhaldsskólum. Um það bil 95% þeirra sem sem útskrifast úr grunnskóla halda áfram í framhaldsskóla. Fyrir 25 ára aldur brautskrást hins vegar aðeins 60% af þeim sem hefja nám í framhaldsskóla. Brottfallið á þessum aldri er því 40%. Þetta eru háar tölur og alvarlegar og brýnt að leita leiða til að koma í veg fyrir svo mikið brottfall.

MenntunargjáStór hluti þeirra sem útskrifast úr framhaldsskóla hefur nám í háskóla. Vegna þessa mikla brottfalls hefur á síðustu árum myndast menntunargjá hjá þjóðinni: þeim fjölgar sem eru með háskólapróf en um þriðjungur fólks á vinnumarkaði er einungis með próf úr grunnskóla. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu vinnum við nú að því að leita leiða til að minnka brottfall og vinnum að nýjum námskrám sem auka fjölbreytni framhaldsskólans. Sú vinna og það starf sem unnið er í samstarfi við félags- og tryggingamálaráðuneytið mun vonandi stuðla að því að við komum út úr kreppunni menntaðri þjóð en sú sem fór inn í kreppuna.

Höfundur er menntamálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×