Innlent

Hálfur Dettifossvegur verri en enginn

Við Dettifoss.
Við Dettifoss.
Ferðaþjónustuaðilar á norðausturhorni landsins óttast hrun, þegar bara hálfur Dettifossvegur verður opnaður meðfram Jökulsárgljúfrum næsta sumar, og segja að ferðamennirnir muni sleppa Ásbyrgi og byggðunum við norðurströndina.

Stefnt er að því að fyrsti áfangi nýs Dettifossvegar verði tekin í notkun síðla næsta sumars, 25 kílómetra kafli frá þjóðvegi eitt og niður að fossinum, vestan megin Jökulsár. Framhaldið, 30 kílómetra kafli niður í Kelduhverfi, stefnir í að frestast um óákveðinn tíma.

Verktaki Dettifossvegar, Árni Helgason, sér það gerast að ferðamennirnir aki af hringveginum á Mývatnsöræfum að fossinum og svo sömu leið til baka. Frá þjóðvegi eitt verði tiltölulega stutt að fossinum og þeir muni því ekki halda áfram niður í Ásbyrgi, enda er þar bara niðurgrafinn moldarslóði.

Á Húsavík óttast menn að þetta muni skaða ferðaþjónustuna þar. Hörður Sigurbjarnarson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar, segir að hálfgerð katastrófa sé framundan þegar Dettifossvegur lendir í niðurskurði og verði ekki kláraður alla leið. Sér lítist mjög illa á það.

Þjóðgarðsvörðurinn í Ásbyrgi og Jökulsárgljúfrum, Hjörleifur Finnsson, segir að fyrir Kelduhverfi og Öxarfjörð sé verra að fá þannig bara hálfan Dettifossveg heldur en engan. Hálfklárað verk sé þannig bein ógnun við svæðið. Hann spáir því að ferðamönnum muni fækka þarna, en ekki fjölga eins og á landsvísu. Það sé slæmt, bæði fyrir þjóðgarðinn, en þó sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna í kring.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×