Innlent

Átak til að rannsaka hugsanleg skattalagabrot

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Fjármálaráðuneytið hefur í samvinnu við skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra ákveðið að hafið verði sérstakt átak til að rannsaka hugsanleg brot á skattalögum í tengslum við hrun bankanna og í aðdraganda þess.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneyti segir að í kjölfar hruns bankanna í október á síðastliðnu ári hafi stjórnvöld brugðist við með ýmsu móti í því markmiði að rannsaka hvað úrskeiðis fór í aðdraganda þess og hvort einhver þau brot hafi verið framin er varði refsingu.

Þannig hafa verið sett á fót rannsóknarnefnd Alþingis og embætti sérstaks saksóknara, auk þess sem Fjármálaeftirlitið hefur verið eflt verulega. Í lögum um embætti sérstaks saksóknara kemur fram að hann skuli eftir þörfum hafa samstarf við Fjármálaeftirlit og skattrannsóknarstjóra ríkisins en ekki er gert ráð fyrir að hann taki skattamál til rannsóknar að eigin frumkvæði heldur skuli þau mál sæta rannsókn á grundvelli kæru frá viðeigandi eftirlitsstofnunum.

Þá segir að afar brýnt sé að hraða rannsókn hugsanlegra skattalagabrota í tengslum við fall bankanna og í starfsemi þeirra í aðdraganda fallsins hvort sem er hjá eigendum, stjórnendum eða starfsmönnum bankanna og félaga sem þeim tengjast. Í ljósi þess er talið æskilegt að aukinn þungi verði lagður í þetta verkefni hjá stofnunum skattsins og því hefur verið efnt til sérstaks átak í þeim efnum. Starfshópur sérfræðinga verður skipaður til að vinna sérstaklega að þessum verkefnum og mun hann starfa innan embættis skattrannsóknarstjóra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×