Fótbolti

Vancouver Whitecaps tapaði úrslitaeinvíginu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Teitur Þórðarson.
Teitur Þórðarson. Mynd/Vancouver Whitecaps

Skagamaðurinn Teitur Þórðarson og lærisveinar hans í Vancouver Whitecaps urðu að sætta sig við 3-1 tap gegn Montreal Impact í seinni úrslitaleik liðanna í baráttunni um meistaratitilinn í Norður-amerísku USL-1 deildinni um helgina.

Impact vann viðureignina samanlagt 6-3 og hampaði því Meistaratitlinum í leikslok á heimavelli sínum, Saputo-leikvanginum. Impact er fyrsta liðið í áratug til þess að vinna alla leiki sína í úrslitakeppni deildarinnar.

Whitecaps hefði þurft að vinna seinni leikinn með tveimur mörkum en eftir hálftíma leik komust heimamenn yfir með marki úr vítaspyrnu og einn leikmaður Whitecaps fékk að líta rautt spjald.

Dómurinn þótti harkalegur en fyrirliði Whitecaps fékk rautt spjald í fyrri leiknum og gat því ekki leikið með í seinni leiknum.

„Rauða spjaldið eyðilagði leikinn algjörlega. Ef til vill var þetta vítaspyrna en það er af og frá að þetta hafi verðskuldað rautt spjald. Þetta var bæði skrýtið og fáránlegt," sagði Teitur í viðtali við kanadíska fjölmiðla í leikslok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×