Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, undrast ummæli sem Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, lét falla á fundi Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur fyrr í dag.
Jón Baldvin lýsti því yfir á fundinum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ætti að víkja úr formannssætinu. Hann kveðst styðja Jóhönnu Sigurðardóttur til að taka við. Ef Ingibjörg víki ekki fyrir Jóhönnu kveðst hann reiðubúinn að bjóða sig fram sjálfur til forystu í flokknum.
Jóhanna sagðist í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins vera algjörlega ósammála Jóni. Ingibjörg sé formaður flokksins og jafnframt sterkur leiðtogi. Jóhanna telur að Ingibjörg muni koma tvíefld til baka úr veikindaleyfi.
