Viðskipti innlent

Grundartangi á sléttu með álverðið í 1.275 dollurum á tonnið

Mike Bless fjármálastjóri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, segir að félaginu hafi tekist að reka álver sitt á Grundartanga á sléttu þegar álverðið fór niður í 1.275 dollara á tonnið í mars s.l. Þetta hafi verið hægt vegna þess hve raforkuverðið á Íslandi er hagstætt félaginu.

Þessar upplýsingar koma fram í viðtali Reuters við Mike Bless um áform Century Aluminium um að koma fyrsta áfanga álframleiðslunnar í Helguvík í gang árið 2012. Bless segir að almennt standi rekstur álvera þeirra á sléttu þegar álverðið er 1.800 til 1.900 dollara á tonnið en þá sé tekið tillit til fjármögnunarkostnaðar og viðhalds. Hvort neðri eða efri mörkin hér gildi fer eftir hráefniskostnaðinum.

Álverðið á markaðinum í London í morgun er komið í 2.070 dollara á tonnið miðað við þriggja mánaða framvirka samninga, en megnið af viðskiptum með ál fer fram á slíkum samningum. Bless segir að Century Aluminium sjá fram á að eftirspurn eftir áli muni aukast til meðal- og langstíma litið.

Á meðan að Century leggur áherslu á að koma Helguvík í gagnið hefur félagið lokað 170.000 tonna álveri sínu í Ravenswood í Virginíu í Bandaríkjunum. Hefur starfsemin þar legið niðri síðan í febrúar í ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×