Innlent

Segist ekki tala á upptökum

Stígur Helgason skrifar
Héraðsdómur Reykjaness Aðalmeðferðin hófst í gær. Henni hefur áður verið frestað tvisvar.
Héraðsdómur Reykjaness Aðalmeðferðin hófst í gær. Henni hefur áður verið frestað tvisvar.
Aðalmeðferð fór fram í gær í máli Gunnars Viðars Árnasonar, sem ákærður er fyrir innflutning á um sex kílóum af amfetamíni hingað til lands.

Gunnar neitar alfarið sök í málinu.

Við aðalmeðferðina í gær dró saksóknari fram ýmis sönnunar­gögn sem áttu að sýna fram á sekt Gunnars í málinu. Meðal sönnunargagnanna eru upptökur af símtölum Gunnars við Hollendinga sem taldir eru hafa sent fíkniefnin hingað til lands. Amfetamínið barst hingað í hraðsendingu, sem Gunnar Viðar sótti.

Hollendingar þessir komu við sögu í risastóru fíkniefnamáli sem upp kom í Ekvador í vor, þegar lagt var hald á tugi tonna af kókaíni blönduðu við melassa, eins konar dökkt síróp, í 600 brúsum.

Gunnar Viðar neitar því hins vegar staðfastlega að vera sá sem heyrist í á upptökunum. Saksóknari hefur lagt fram gögn sem sýna eiga fram á annað.

Þrír menn sátu upphaflega í gæsluvarðhaldi grunaðir um tengsl við málið; Gunnar, Ársæll Snorrason og Sigurður Ólason.

Einungis Gunnar var ákærður. Ríkissaksóknari hefur enn til meðferðar önnur mál þeirra Ársæls og Sigurðar, og ekki er útilokað að þau leiði til ákæru. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×